Sagnfræðingurinn Ingibjörg Sólrún

Skólasystir mín úr menntaskóla, sagnfræðingurinn Ingibjörg Sólrún, er nú að eigin sögn við björgunarstörf á sökkvandi skipi frjálshyggjunnar. Það gæti virst vera göfugt verkefni. Vandinn er hins vegar sá að hún er þar í hópi fólks sem ekki hefur lengur traust þjóðarinnar til að sinna verkefninu. Umboðið er runnið úr gildi.
Þúsundir Íslendinga mótmæla á Austurvelli við styttu Jóns Sigurðssonar á hverjum laugardegi og miklu fleiri reiðir Íslendingar eiga ekki heimangengt af ýmsum ástæðum. Ingibjörg Sólrún gleymir að telja þá með. Kröfur fólksins eru hógværar og sanngjarnar, farið er fram á kosningar fyrir vorið og að menn axli ábyrgð sína á ástandinu sem leitt hefur verið yfir þjóðina.
Löngu er orðið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er svo fullur af hroka og lítur svo niður á almenning að engin von er til að hann taki af skarið. Þess vegna er ábyrgð Samfylkingarinnar svo mikil nú. Þar innanborðs virðist enn til fólk sem skilur hugtök eins og lýðræði og réttlæti. Því eru það mikil vonbrigði að formaðurinn, Ingibjörg Sólrún, komi fram fyrir þjóð sína eins og samanbitið íhald og sýni henni þá fyrirlitningu að hlusta ekki á réttmætar kröfur hennar um kosningar. Sagan sýnir að íslenskur almenningur fjölmennir ekki til mótmæla á Austurvelli nema þegar mikið liggur við, mjög mikið. Íslendingar eru friðelskir, en svo má brýna deigt járn að bíti. Það ætti Ingibjörg Sólrún að vita þótt hún sé ekki efnafræðingur. Það getur reynst bæði heimskulegt og hættulegt að hunsa þessi mótmæli íslensku þjóðarinnar.
Með þessari óbilgirni er ríkisstjórnin að bjóða þjóðinni upp í dans sem getur orðið ansi krappur svo ekki sé fastara að orði kveðið. Sagnfræðingurinn Ingibjörg Sólrún virðist farin að ryðga í sögunni. Sagan segir okkur að þegar réttlætiskennd almennings er freklega misboðið getur ýmislegt gerst ef ekki er brugðist rétt við. Ekki dugir að halda blaðamannafundi á föstudögum og henda í þjóðina einhverjum innihaldslitlum dúsum í þeirri von að enginn mæti á Austurvöll daginn eftir. Þetta er vanvirðing við almenning. Með svona háttalagi eru Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún að espa fólk upp. Hernaðarráðgjafinn þeirra hlýtur að halda að greindarvísitala allra Íslendinga sé undir 50. Það er kannski skiljanlegt þegar hugsað er til þess hvernig komið er fyrir þessari þjóð. En er það ekki annars fullkomnun ósvífninnar að ráða erlendan hermann til að blekkja íslenska þjóð og ætla þjóðinni síðan að greiða honum laun fyrir að blekkja sig? Verður lengra komist í fáránleikanum? Eða er hermaðurinn í sjálfboðavinnu hér?
Hinir fullorðnu hafa enn sem komið er haldið sig við friðsamleg mótmæli, en ungviðið sem líka hefur réttlætiskennd, en minni þolinmæði en hinir fullorðnu hefur skotið mjúkum viðvörunarskotum að þinghúsinu. Sem sagnfræðingur ætti Ingibjörg Sólrún að vita að sú skothríð mun harðna ef ekki er hlustað á réttmætar kröfur fólksins í landinu. Ég óttast að svo geti farið að skotfærin verði ekki bara egg og tómatar. Af geta hlotist atburðir sem enginn kærir sig um en þeir verða þá á ábyrgð óbilgjarnra valdafíkla sem ekki skynja sinn vitjunartíma. Með illu skal illt út reka. Við slíku má búast ef friðsamleg mótmæli duga ekki. Umsátrið um lögreglustöðina á Hverfisgötu er fyrsta merkið um vaxandi hörku og þverrandi þolinmæði mótmælenda. Þetta er ekki hótun, en við hljótum að draga lærdóm af sögunni. Og ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar. Vill Ingibjörg Sólrún að nafn hennar verði á spjöldum slíkrar sögu? Og það sem mikilvægara er. Vill hún taka þátt í því að þvinga þjóð sína til að grípa til örþrifaráða þannig að réttlætið nái fram að ganga? 
Ég leyfi mér að gera orð Hallgríms Helgasonar að mínum lokaorðum. “Þolinmæði okkar er ekki endalaus, en af réttlætiskenndinni eigum við nóg”.  

« Síðasta færsla

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband