23.11.2008 | 16:09
Frjálshyggjuflónin og fúafenið
Fyrir nokkrum árum kvað við nýjan tón í Sjálfstæðisflokknum. Fyrsta boðorðið varð laissez faire, frjálshyggjan var boðuð sem aldrei fyrr, frelsi markaðarins skyldi vera æðra frelsi mannsins.
Sjálfstæðismenn seldu vinum sínum ríkisfyrirtæki á smánarverði. Meðal þeirra voru ríkisbankarnir. Þeir voru afhentir fjárglæframönnum. Sjálfstæðisflokkurinn sá ekki ástæðu til að setja þeim nauðsynlegar leikreglur. Fjárglæframennirnir fóru sínu fram og skömmtuðu sér ofurlaun. Almenningur kvartaði en Sjálfstæðismenn sáu ekkert athugavert við þennan fjárdrátt. Þeir mærðu útrás bankanna og töluðu um verðmætasköpun. Hvar eru þau verðmæti nú? Vöxtur bankanna byggðist á óábyrgum lántökum, þetta voru loftbólur sem sprungu um leið og kreppti að. Og nú er ætlast til þess að almenningur borgi skuldirnar sem þessir óreiðumenn stofnuðu til í skjóli Sjálfstæðismanna sem enga ábyrgð vilja bera. Þeir vísa í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þegar að minnst er á að frysta eignirnar sem þessir menn hafa dregið sér. En ekki er minnst á eignarrétt almennings sem ætlað er að borga allt sukkið. Almenningur skal fá að þræla árum saman á sultarlaunum til að borga fyrir þá svívirðu sem Sjálfstæðismenn og auðmenn landsins hafa leitt yfir okkur. Auðmennirnir skulu hins vegar fá að hafa sitt í friði hvort sem það er stolið eða ekki. Ef Sjálfstæðismenn hefðu fengið að ráða væri heilbrigðiskerfið komið í hendur gróðafíkinna manna og íbúðalánasjóður væri ekki til. Menn voru tilbúnir að ganga langt í græðgivæðingunni.
Sjálfstæðismenn hafa nú gert okkur að betlurum í samfélagi þjóðanna. Baukur og betlistafur eru okkar örlög. Við erum trausti rúin, niðurlægð og höfum tapað virðingu annarra. Íslenskur almenningur á þetta ekki skilið. Í raun höfum við tapað sjálfstæði okkar. Sumir tala um landráð. Er ekki heiti Sjálfstæðisflokksins eitthvað undarlegt? Við erum meira að segja réttdræp um víða veröld af því að tveir ósvífnir íslenskir ráðherrar ákváðu að íslenska þjóðin skyldi styðja hernað gegn saklausu fólki í Írak. Þeir gerðu okkur að fótaþurrkum Bandaríkjamanna og Breta sem nú hafa launað minnstu NATÓ þjóðinni eins og þeim finnst við hæfi.
Sjálfstæðismenn hafa verið við völd í 17 ár samfleytt og niðurstaðan er sú sem að ofan greinir. Svona er lífið sagði varaformaðurinn. Já, Þorgerður Katrín, svona er lífið undir stjórn Sjálfstæðismanna. Þeir virðast hins vegar ekki á því að axla sína ábyrgð og sitja sem fastast í valdastólunum. Sjálfstæðisflokkurinn hegðar sér nú eins og krakki sem er búinn að kúka í buxurnar en kannast ekki við það þótt kúkalyktina leggi um allan bæ.
Sjálfstæðismenn reyna að telja þjóðinni trú um að efnahagshrunið sé eins konar náttúruhamfarir sem hvorki hafi verið viðráðanlegar né fyrirsjáanlegar. Hvort tveggja er lygi. Margir urðu til þess að vara við, en Sjálfstæðismenn kusu að gera ekkert.
Fólkið í landinu er enn lamað, en reiðin kraumar og hún mun fá útrás ef Sjálfstæðismenn ætla að sitja áfram. Nú þykjast þeir ætla að láta rannsaka spillinguna og glæpina. Þau orð eru þó ótrúverðug. Ætla þeir að rannsaka sjálfa sig og samherja sína? Og hver á svo að dæma? Sjálfstæðisflokkurinn hefur eyðilagt dómstóla landsins með því að troða eigin mönnum inn í þá. Skv. könnunum ber þjóðin ekki traust til dómstólanna.
Í upphafi bankahrunsins fullvissaði forsætisráðherra þjóðina um að hún þyrfti ekki að óttast um lífeyrissparnað sinn. Ef marka má upplýsingar síðustu daga sagði forsætisráðherra þjóð sinni ósatt. Í nágrannalöndum þurfa ráðherrar að segja af sér fyrir minni sakir. En Sjálfstæðismenn virðast vera svo skyni skroppnir gagnvart ábyrgð sinni á ástandinu að þeir virðast telja að þeim sé sætt út kjörtímabilið. Ábyrgð Samfylkingarinnar er mikil að halda hlífiskildi yfir mönnum sem hafa komið þjóð sinni í svo miklar ógöngur. En bæði Sjálfstæðismenn og Samfylkingin mega vita að almenningur mun þvinga fram kosningar með handafli ef þarf. Brynvarðir bílar Björns Bjarnasonar munu ekki koma í veg fyrir það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.